top of page

Banaslys á Bárugötu

Lést samstundis - endurlífgun aldrei möguleg”, segir lögreglan.

Banaslys-á-Bárugötu 1.jpg

Ættingjar og vinir Geirmundar lögðu m.a. blóm og minningarplatta við slysstaðinn.

Banaslys á Bárugötu 3.jpg

Geirmundur Flugmann

Fullorðin fluga, Geirmundur Flugmann, beið bana í umferðarslysi á Bárugötu í gær til móts við hús númer 10.

 

Að sögn lögreglunnar barst henni tilkynning um slysið kl. 11:32 og var komin á svæðið um sjö mínútum síðar ásamt sjúkrabíl. Strax varð þó ljóst að Geirmundur var látinn enda var hann í tvennu lagi og hafði auk þess misst mikið blóð. Var ættingjum hans og vinum sem flykkst höfðu á slysstað því leyft að fjarlægja líkið að lokinni vettvangsrannsókn.

Tildrög slyssins eru ekki með öllu ljós en að sögn vitna var Geirmundur af einhverjum ástæðum í lágflugi yfir götunni þegar hvítri sendiferðabifreið var ekið á hann. Geirmundur skall með ennið á stuðaranum og síðan á númeraplötunni sem klippti hann í tvennt. Lentu báðir hlutarnir á gangstéttinni en ökumaður bifreiðarinnar ók á brott. Þykir lögreglunni líklegt að hann hafi ekki orðið var við slysið.

Vel metin samfélagsfluga

Geirmundur var þekktur og mikilsmetinn í flugnasamfélagi Reykjavíkurborgar, þótti afar hjálplegur og ósérhlífinn og hafði m.a. hlotið viðurkenningu borgarinnar fyrir starf sitt í þágu heimilislausra flugna og munaðarleysingja. Dauði hans er því mörgum harmdauði og hans verður sárt saknað af sínum nánustu, svo og öllum öðrum sem þekktu hann.

 

Grefillinn sendir ættingjum og vinum Geirmundar sínar innilegustu samúðarkveðjur, en hann hafði um árabil verið áskrifandi að Greflinum.

bottom of page