HVUR GREFILLINN!
Illmælgisfaraldurinn ekki í rénun
Margir orðnir grænir í gegn og eiga sér enga batavon.
Illmælgisfaraldurinn sem herjað hefur á Íslendinga undanfarin ár heldur áfram að breiðast út og virðist ekkert lát á eins og glögglega má sjá á sívaxandi fjölda kommenta og Facebook-innleggja þeirra sem smitast hafa. Óttast margir að ef svo heldur fram sem horfir verði um þriðjungur þjóðarinnar orðinn smitberar innan fárra ára.
Að sögn Görans Gunnarssonar, faralds- og smitsjúkdómafræðings, er talið að meira en fjörutíu og fimm þúsund Íslendingar hafi þegar smitast af illmælgisveirunni og þar af séu nú um tvö þúsund manns með sjúkdóminn á lokastigi. Af þeim eru um þrjú hundruð orðin græn í gegn, eins og sagt er, en það þýðir að þau eigi ekki lengur neina möguleika á að læknast af þessum vágesti.
Hverjar eru helstu smitleiðir veirunnar?

Illmælgisveiran: Græn eins og öfundsýkin.
Við vitum að veiran myndast upphaflega og dafnar á peningaseðlum og smitast þannig í fólk. Þess utan smitast margir á að lesa neikvæða umræðu í fjöl- og samfélagsmiðlum aðallega þeir sem litla fræðslu hafa fengið um veiruna eða hafa ekki náð að mynda mótefni gegn henni í uppeldinu. En þótt fólk smitist af henni þýðir það ekki að allir verði veikir. Fæstir sýna alvarleg einkenni fyrr en veiran nær að hreiðra um sig í huga þeirra og byrjar að fjölga sér þar. Enginn veit enn hvers vegna það gerist þó um það séu margar kenningar. Hins vegar er óumdeilt að eftir að veiran byrjar að fjölga sér verða sjúklingarnir sjálfir helstu smitberarnir og þeir skæðustu.
Hver eru helstu einkenni sjúkdómsins?
Upphafseinkennin eru þau að sá sem veikist fer að finna fyrir vaxandi sjálfsvorkunn og minnimáttarkennd ásamt óánægju með eigið hlutskipti. Með tímanum verða þessar neikvæðu hugsanir og tilfinningar sífellt stærri hluti af skoðunum hans, hverjar sem þær eru, og hann fer að finna svölun í illmælgi um annað fólk. Með þessu byrjar sjúklingurinn sjálfur að næra veiruna með síauknum lestri á öllu því neikvæðasta sem hægt er að nálgast í íslenskri fjöl- og samfélagsmiðlun og taki svo að dreifa, eða jafnvel skapa sjálfur ill og særandi ummæli um aðra. Á þriðja stigi sjúkdómsins yfirtekur veiran svo nánast allar hugsanir sjúklingsins og um leið hverfur öll manngæska úr hugsunum hans, svo og öll tillitsemi og virðing fyrir öðrum. Þar með verður lífshamingja hans bara orðin tóm, enda er hann þá orðinn ófær um að sjá nokkuð jákvætt við tilveruna.
Er auðvelt að þekkja þá úr sem hafa smitast?
Já, kannski ekki strax á frumstigi, en það er tiltölulega einfalt eftir að sjúkdómurinn hefur hreiðrað um sig, bara með því að hlusta á hvað viðkomandi segir eða lesa það sem hann eða hún skrifar. Það einkennist einatt af vandlætingu í garð annarra sem þróast síðan út í grímulaust hatur og rætni eftir því sem sjúkdómurinn ágerist.
Hvað með lokastig sjúkdómsins?
Þá er fólk orðið grænt í gegn eins og sagt er, algjörlega stjórnlaust af neikvæðni út í allt og alla og hvorki gerir né hugsar um neitt annað en að dreifa sem mestum rógi, svívirðingum og illmælgi um annað fólk, t.d. á bloggsíðum, kommentakerfum og Facebook. Árásargirnin verður öllu öðru yfirsterkari og engin orð eru spöruð til að særa fólk og niðurlægja, og næra veiruna um leið.
Hverjir eru líklegastir til að veikjast?
Fyrst og fremst þeir sem geta ekki lifað lífinu án þess að vera stöðugt að bera sig saman við aðra og metast um efnislega hluti. Veiran virðist einnig eiga nokkuð greiða leið að þeim sem öfunda aðra af þeirra hæfileikum í stað þess að nota sína eigin, svo og þeim sem hafa klúðrað tækifærum sínum og kenna öðrum um. En síðan er líka til fólk sem virðist þróa veiruna með sér mun hraðar en annað fólk. Þetta fólk er auðþekkjanlegt á húmorsleysi og yfirgengilegri illmælgisþörf í garð annarra á fyrri stigum sjúkdómsins, sérstaklega þeirra sem hafa aðra trú eða lífsskoðun en það hefur sjálft, er frá öðrum menningarheimum eða hefur annan húðlit.
Er engin lækning til við þessum ófögnuði?
Nei, það hefur enn ekkert bóluefni eða lyf verið þróað gegn þessu og ólíklegt að það muni nokkurn tíma gerast, en hins vegar eru til fyrirbyggjandi leiðir sem varna því að fólk smitist og geta jafnvel læknað þá sem hafa nýlega smitast eða eru með sjúkdóminn á byrjunarstigi.
Hverjar eru þær helstar?
Besta leiðin til að komast hjá smiti er að forðast þá smituðu og temja sér um leið jákvæðni í öllum samskiptum. Fyrsta reglan ætti að vera að gera ekki öðrum eitthvað sem maður myndi ekki vilja láta gera sér eða viðhafa um aðra orð og setningar sem manni þætti sárt ef notuð yrði um mann sjálfan. Þeir sem hafa þegar smitast ættu auðvitað líka að forðast aðra sjúklinga, ekki síst lestur á því sem þeir skrifa, og snúa sér að jákvæðari notkun á tíma sínum í stað þess að setja sig dómarasæti gagnvart öðrum. Þeirra fyrsta regla ætti að vera sú að ef maður hefur ekkert uppbyggilegt og jákvætt að segja þá eigi maður að þegja. Þannig er hægt að svelta veiruna, ef svo má að orði komast, og vonandi losna við hana með öllu úr líkamanum.
Er einhver von til þess að útbreiðsla sjúkdómsins stöðvist á næstu árum?
Það er alltaf von í sjálfu sér, en vonin ein dugar skammt án aðgerða. Í þeim efnum verður hver og einn að líta í eigin barm og horfast í augu við þann möguleika að hann gæti verið smitaður án þess að gera sér grein fyrir því.
Samkvæmt áreiðanlegum rannsóknum Grefilsins hefur ekkert kostað íslenskt þjóðfélag jafnmikið á undanförnum árum og illmælgisveiran, enda verður hugsanaheilsa heillrar þjóðar ekki metin til fjár.